Með Mosfellsbæ á heilanum

Ég er með Mosfellsbæ á heilanum. Spurði hér á X fyrir um ári síðan hvar eitthvað skemmtilegt gæti þróast í bænum. Því miður þá hefur bærinn sjaldnast verið skipulagður undir mannlíf. Heilu hverfin án allrar þjónustu og ekkert rými sjáanlegt fyrir einhverja almennilega stemningu - fyrir einhverja spennandi framtíðarsýn á bæinn.

Eina sem ég fann var Blikastaðalandið og áformin þar. Þetta er er náttúrulega teiknað inn í geðslag manns sem er giftur arkítekt. Ógeðslega flott skipulag, borgarhverfi í útjaðri Mosfellsbæjar, nýtískulegt og spennandi -urban Skandinavíu paradís. Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt.

Í Blikastaðalandi auðvitað mest spennandi svæðið sú þjónusta og uppbygging sem er fyrirhuguð í kringum gömlu Blikastaði, gamla bæinn. þetta er akkúrat það sem ég var að leita að. Ég var fljótur að mæta á svæðið og banka á glugga og tala í bunu um hvað vantaði í Mosfellsbæ og var í kjölfarið ráðinn sem tímabundinn ráðgjafi um starfsemi í Gamla bænum.

Frumdrög skipulagsins voru kynnt fyrir fullu húsi í Hlégarði í vikunni. Þetta var glæsilegur fundur og ég held að það hafi glatt bæjarbúa hversu vönduð og úthugsuð drögin voru. Sumir vilja fjölga sérbýlum og fækka fjölbýlum. Finnst mér eins og ég heyri þessa umræðu daglega í einhverri mynd. Ég er á öndverðu meiði. Meira fólk, meira mannlíf, fleiri torg þar sem við getum hist og séð hvort annað, meira samfélag. Ég held að það sé eina lausnin á flestum vandamálum. Þannig plís deilið við einhvern annan en mig um það.

Flestir höfðu þó áhyggjur af aukinni umferð, skil ég það vel. Ég hef svo miklar áhyggjur af umferðinni að ég er búinn að gefast upp - tek strætó í vinnuna og sit þar og hugsa allan daginn hvort að bíllinn sakni mín ekki.

Áhugaverðasta innleggið þótti mér samt vera um hverskonar þjónusta væri fyrirhuguð á svæðinu, því það hafi sýnt sig að að til dæmis væru mosfellingar ekkert æstir í að kaupa föt í heimabyggð.

Þetta er auðvitað hárrétt, það hljóta vera takmörk fyrir því hversu margar veip-verslanir er hægt að reka í einu bæjarfélagi, eða hversu margar la-la keðjur úr bænum ætli að freista gæfunnar hérna. Það þarf og að hugsa þetta svæði með tilliti til menningarlegra og samfélagslegra þarfa Mosfellinga - ekki bara með því að hugsa hvaða tegund af hamborgara er í tísku núna.

Hvað vantar? Vantar fjölnota svið þar sem hægt er að halda tónleika og leiksýningar fyrir leikfélagið? Vantar brugghús með flísuðum veggjum þar sem húðflúraðir gaurar reykja svínakjöt og dæla öllurum eins og það sé verið að miða á þá byssu?

Vantar nokkuð fataverslun? Ætti Adam og Eva að fá að reyna aftur að opna kynlífshjálpartækjaverslun í smábæ þar sem helsta iðjan er að njósna um nágranna sína!

Ætti að vera þarna crossfit-salur sem gæti breyst í jógasal? Skeitpark?, Fab-lab, fjölnota verkstæði fyrir unga ofurhuga? Sauna sem er hengd aftan í hestvagn og er í hægum gangi um hverfið allan ársins hring? Ætti að fá Nexus til að opna útibú í gömlu hlöðunni? Taka vel utan um taðskegglinga bæjarins.

Það allavega þýðir lítið að vera heima hjá sér og vona að eitthvað skemmtilegt gerist. Hér þarf að tala saman og svo láta hlutina gerast.

Hvað sárvantar í Mosfellsbæ?

Sendið á mig línu á dorinr1@gmail.com.