Fyrsta vín aðventunnar

Ég drakk vín. Það eru kannski ekki tíðindi.

En ég pantaði nokkur vín á dögunum sérstaklega til þess að njóta um jólin og kannski nýt ég þeirra meira ef ég skrifa um þau.

Víngerðarmaðurinn er Antoine Sansay, hann er í Loire. Ekran er Les Poyeaux, þrúgan er Cabernet franc.

Ég elska vín frá Loire, manni finnst eins og íslendingar séu alveg sérstaklega aftarlega á merinni þegar það kemur að Loire. Kannski Sancerre and Pouilly Fumé - Sauv blanc - eigi hér einhverja aðdáendur. En í Loire rækta þeir miklu betra hvítvín með Chenin Blanc og gera einstaklega góð rauðvín úr bæði Pinot noir, gamay, pinot d'aunis og síðast en ekki síst cabernet franc.

Ég hef drukkið cab franc frá einum frægasta framleiðanda Loire - Clos Reaugard - og þetta eru algjörar bombur.

Ég nenni ekkert að tala um hvaða bragð var af víninu - nema bara augljóslega græn paprika eins og allt cab franc.

En ég hef hitt þennan bónda, nokkrum sinnum. Smakkað vínin hans á La Dive sem haldið er í Loire. Svo fengum við nokkrar flöskur frá honum á Mikka Ref þegar það ævintýri flaug hátt. Á þeim tíma voru þetta full alvarleg vín fyrir mig, ég vildi helst bara drekka eitthvað bleikt sem smakkaðist eins og vatn með súrum brjóstsykri.

Smakkanirnar hafa heldur aldrei heillað mig, helst af því að ég henni aldrei að setja mig í stellingar fyrir þær. ímynda mér hvernig vínið verður eftir nokkur ár, því ferskir árgangar af rauðu Loire eru oft ansi tannískir og grófir…

Ég sá þetta vín á vefsíðu og pantaði það.

Það var geggjað, byrjaði ramt og bragðgott, svo gufaði allt upp og ekkert stóð eftir nema franska sumarið, svo milt og gott. Og það var akkúrat það sem ég þurfti á aðventunni.